Vikupóstur stjórnenda grunnskólans

Kæru vinir
Það var gaman að verða vitni að því í vikunni þegar 1. bekkur kveikti á jólatrénu í Hólmgarði en um leið skrítið að hafa stundina ekki opna öllum venju samkvæmt. Nemendur í 1. bekk eru þeir fyrstu sem kveikja á íslensku jólatré því hingað til hefur tréð verið gjöf frá Drammen vinabæ Stykkishólms í Noregi.
Tilkynningar
Við viljum vekja athygli á framtaki Vöndu Sigurgeirsdóttur og fólkinu sem vinnur með henni hjá Kvan. Þau eru búin að stofna KVAN TV þar sem umfjöllunarefnið er einelti, samskiptavandi og félagsfærni barna. Við viljum eindregið hvetja alla foreldra til þess að horfa á eftirfarandi. Virkilega gott efni og þörf umræða.
Hvernig eigum við að takast á við einelti og samskiptavanda og auka félagsfærni barna.
Við sendum út yfirlit yfir ástundun nemenda í vikunni. Það er eitthvað sem við ætlum að gera framvegis um mánaðarmótin nóvember - desember og svo aftur um mánaðarmótin febrúar - mars. Allir fá svo yfirlit um ástundun í vitnisburðarblaði við skólaslit.
Þá viljum við minna á rétt fólks til þess að sækja um tómstundastyrk (Dotacja na zaj?cia sportowe i rekreacyjne). Styrkurinn tengist aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19. Allar upplýsingar er að finna á eftirfarandi krækju.
https://island.is/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs
Að lokum hafa safnast upp óskilamunir eins og áður. Við höfum sett dallana alveg við útidyrahurðina. Ykkur er leyfilegt að koma og kíkja í þá til þess að athuga hvort ykkar börn eiga eitthvað í þeim.
Á döfinni
Í janúar verða nemenda- og foreldrasamtöl. Sú nýbreytni er á þessu skólaári að við erum ekki með annir heldur má segja að allur veturinn sé ein önn. Þetta eru því eins konar miðsvetrarsamtöl. Ekki verða prentuð út vitnisburðarblöð og munu vitnisburðablöðin í vor endurspegla nám alls vetrarins. Samtölin í janúar eru því ætluð til að ræða stöðu nemandans á þessu skólaári.
Njótið helgarinnar með ykkar nánustu ?
Berglind og Lilja Írena