Starfsreglur foreldrafélags GSS

1. gr. Foreldrafélag Grunnskólans í Stykkishólmi

Við Grunnskólann í Stykkishólmi starfar foreldrafélag, sbr. 9. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008, og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái nægan stuðning til starfsemi sinnar frá skólanum eftir því sem þörf krefur.


2. gr. Félagsmenn

Foreldrum og forsjáraðilum nemenda í Grunnskólanum í Stykkishólmi er heimil aðild að félaginu.


3. gr. Bekkjardeildir og stjórn

Foreldrar nemenda hvers bekkjar mynda deildir innan félagsins og sér hver deild um starf í þágu síns bekkjar. Hver deild velur sér tvo bekkjarfulltrúa sem jafnframt eru stjórnarmenn í foreldrafélagi skólans.
Í upphafi skólaárs skal umsjónarkennari hvers bekkjar boða viðkomandi foreldra og forsjáraðila til fundar þar sem bekkjarfulltrúar eru valdir.
Eigi síðar en 20. september skal skólastjóri boða nýja stjórn foreldrafélagsins og fráfarandi embættismenn stjórnar ársins á undan til fundar, þar sem farið verður yfir starf vetrarins og fráfarandi embættismenn(formaður, ritari, gjaldkeri) skýra þar frá högum félagsins þ.m.t. fjárhagsstöðu.
Á fundinum skulu bekkjarfulltrúar velja sér embættismenn: Formann, gjaldkera og ritara. Embættismenn séu ekki starfsmenn grunnskólans. Tveir stjórnarmenn skulu sitja í stjórn félagsins til tveggja ára og skal það liggja fyrir að vori hverjir tveir bjóði sig fram til þess.


4. gr. Hlutverk

Lögbundið hlutverk foreldrafélagsins er þríþætt;
1. að styðja skólastarfið
2. að stuðla að velferð nemenda
3. að efla tengsl heimila og skóla.
Stjórn félagsins ber að sjá til þess að félagið sinni skyldum sínum og fer það eftir ákvörðunum hennar hverju sinni hvernig það er gert.
Félagið fjallar ekki um mál einstakra nemenda eða foreldra eða starfsfólks skólans.


5. gr. Félagsgjöld

Félagsgjöld skulu ekki innheimt nema samkvæmt ákvörðun félagsfundar hverju sinni.
Hafi félagsfundur ákveðið að innheimt skuli félagsgjöld er nafnalisti heimila sendur til bankans til að sjá um innheimtu í upphafi skólaárs.
Fjármunir foreldrafélags grunnskólans í Stykkishólmi skulu varðveittir á bankareikningi félagsins á kennitölu þess. Ráðstöfun fjármuna skal vera með eftirfarandi hætti:
1. Að niðurgreiða skíðaferð 7. bekkjar
2. Að niðurgreiða menningarferð 5. bekkjar
3. Að greiða fyrir fyrirlestra og/eða fræðslu til foreldra.
4. 20% félagsgjalda yfirstandandi árs standi óhreyfð til næsta starfsárs.


6. gr. Kosning fulltrúa í skólaráð og skólanefnd.

Stjórn foreldrafélagsins kýs tvo fulltrúa í skólaráð þannig að einn fulltrúi er kosinn ár hvert til tveggja ára. Þegar kosið er í skólaráð í fyrsta skipti eða þegar forföll verða er annar fulltrúi foreldra kosinn til eins árs og hinn til tveggja ára. Sama hátt skal hafa á við kosningu varamanna.
Stjórn foreldrafélagsins kýs einn fulltrúa í skólanefnd Stykkishólmsbæjar á hverju hausti, skv. reglum sveitarfélagsins þar um. Fulltrúi foreldrafélagsins hefur á fundi skólanefndar málfrelsi og tillögurétt. Formaður foreldrafélagsins skal tilkynna til bæjaryfirvalda val stjórnar. Boðun á fundi skólanefndar er á ábyrgð bæjaryfirvalda.


7. gr. Stjórnarfundir

Stjórnarfundi skal halda mánaðarlega á starfstíma skólans. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara.
Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti embættismanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns úrslitum.
Ákvarðanir stjórnar skulu færðar í fundargerð sem staðfestar skulu af stjórn.
Stjórnarfundir eru öllum félagsmönnum opnir.

8. gr. Félagsfundir

Félagsfundi má halda samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni eða að kröfu tíunda hluta félagsmanna. Stjórn félagsins skal með viku fyrirvara boða til félagsfunda með tryggilegum hætti. Dagskrá skal liggja fyrir eigi síðar en þremur dögum fyrir félagsfund.

9. gr. Breyting á starfsreglum

Tillaga um breytingar á starfsreglum þessum skal tekin til meðferðar á stjórnarfundi og skal efni hennar lýst í dagskrá. Samþykki 2/3 fundarmanna þarf til að breyta starfsreglum félagsins.

Samþykkt á stjórnarfundi Foreldrafélags Grunnskólans í Stykkishólmi 1. febrúar 2016.