Saga skólans

Skólahald í Stykkishólmi á sér langa sögu. Stykkishólmshreppur var stofnaður árið 1892 og fjórum árum síðar, árið 1896, var fyrsta skólahúsið byggt. Þá hófst formlega rekstur barnaskóla í Stykkishólmi.  Almenn barnafræðsla hófst þó nokkru fyrr en hún var þá ekki á vegum hreppsins heldur í höndum ýmissa góðborgara, svo sem prestsins, oddvitans og annarra sem létu sig málið varða. Ekki má gleyma hjónunum Önnu og Ólafi Thorlacius en þau ráku einkaskóla áratugum saman fyrir börn sem og fullorðna.

Fyrsta skólahúsið varð fljótlega of lítið fyrir skólastarfið og árið 1910 var íbúðarhús Guðmundar Eggerz sýslumanns keypt fyrir skólahús.  Fyrsta skólahúsið varð þá aðsetur bakara í Stykkishólmi og var það um langan tíma og seinna farfuglaheimili.  Nýja húsnæðinu var breytt og það lagað að þörfum skólastarfsins.  Rúmum tveimur áratugum síðar,  í upphafi fjórða áratugarins, varð húsið eldsvoða að bráð. Þá var tekin ákvörðun um að byggja nýtt skólahús á sömu lóð og það gamla, á hæðinni á Skólastíg.  Í millitíðinni var kennt á tveimur stöðum, í samkomuhúsinu (bíóinu) sem nú hýsir Eldfjallasafnið og Veðramótum en húsið Veðramót stóð á horni Austurgötu og Skúlagötu. 

Nýja skólahúsið átti að vera úr steinsteypu og rúma yfir 100 börn. Skólahúsnæðið átti að vera sniðið að kröfum skólahalds þess tíma með kennarastofu, baðherbergjum, leikstofum fyrir börnin og leikfimissal, svo eitthvað sé nefnt. Barnaskólinn í Stykkishólmi var tekinn í notkun árið 1935 en leikfimissalurinn reis síðar og kennsla hófst í honum árið 1947. Byggingin stendur enn og hýsir í dag Tónlistarskóla Stykkishólms.  Árið 1952 hóf Iðnskólinn í Stykkishólmi starfsemi sína í húsnæði Barnaskólans. Skólahúsnæðið rúmaði fljótlega ekki alla þá starfsemi sem þar fór fram og var í gegnum tíðina ýmist húsnæði nýtt samhliða Barnaskólanum.  Ekki er rekinn Iðnskóli lengur í Stykkishólmi.

Árið 1986 var nýtt skólahús við Borgarbraut 6 vígt. Kennt var í báðum skólahúsunum, yngri nemendur skólans stunduðu nám í ,,gamla skólanum“ og eldri nemendur í þeim ,,nýja“. Haustið 2009 færðist allt skólahald í nýja skólahúsið við Borgarbraut og ,,gamli skólinn“ hýsir nú eingöngu Tónlistarskóla Stykkishólms sem hefur haft þar aðstöðu frá árinu 1991.  Um sögu tónlistarskólans má lesa á heimasíðu hans. 

Amtbókasafnið, stofnun mennta, menningar og upplýsingartækni var byggt við skólann árið 2017.

Heimildir: 
Trausti Tryggvason. 1996. Saga barnafræðslu og smíða í Stykkishólmi. Stykkishólmspósturinn, 19. september. 

Sesselja Kristinsdóttir. 1981. Skólahald í Stykkishólmi frá 1880 1946. Kennslufræðiritgerð við Kennaraháskóla Íslands.