Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir 
 
Þá er skólastarfið farið aftur af stað eftir páska. Við vonum að allir hafi haft það gott í leyfinu.  
 
Gaman er að sjá hversu margir nýta sér hjól til að koma til og frá skóla, við viljum minna á hjálmana en lang flestir nota hjálm. Þá viljum við með hækkandi sól hvetja til þess að nemendur fái nægan svefn og freistist ekki til að vaka of lengi enda hjápar svefn bæði við að að festa í minni það sem lærst hefur um daginn og undirbúa hann fyrir áframhaldandi nám. 
 
Nú er búið að boða afléttingu hafta í skrefum. Á blaðamannafundi forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra kom fram að eftir 4. maí verði skólahald í grunn- og leikskólum með eðlilegum hætti. Þann dag er skipulagsdagur hjá okkur svo við eru að horfa til 5. maí. Sjá nánar á vef Kennarasambands Íslands: https://www.ki.is/um-ki/utgafa/frettir-og-pistlar/frettir/2020/leik-og-grunnskolastarf-i-edlilegt-horf-i-byrjun-mai/ 
 
Það er þó ýmsum spurningum ósvarað og er verið að vinna að miðlægum gagnagrunni þar sem hægt er að leita svara. Við munum upplýsa ykkur eins fljótt og auðið er hvernig málum verður háttað hérna hjá okkur.  
 
Í upphafi þessarar viku var tekin ákvörðun um að opna Regnbogaland aftur. Vistunartíminn er þó lítillega skertur en hægt er að fá vistun til annað hvort 14:30 eða 15:30. Það er gert svo hægt sé að þrífa vel og þá sértaklega alla snertifleti. Þá er bekkjunum enn haldið aðskildum svo mikilvægt var að skrá nemendur aftur. 
 
Góða helgi  
 
Berglind og Lilja Írena