Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir 
 
Þá er febrúar að verða búinn og mars handan við hornið. Við erum búin að vera mjög heppin með veðrið í vetur og hefur það haft jákvæð áhrif vegna útiveru nemenda.  
 
Í vikunni urðu tilslakanir á reglum vegna Covid-19. Helstu breytingar eru þær að nú getum við haft allt starfsfólk í einu rými með 1 metra fjarlægð á milli. Annars á að nota grímur. Foreldrar geta nú komið inn í skólann aftur en grímuskylda ef ekki er hægt að viðhafa 1 metra reglunni.  
 
Reglurnar eru hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/02/23/Rymkun-a-skolastarfi-haskolar-geta-hafid-stadnam-ad-nyju/ 
 
Á döfinni 
 
Við minnum á að á mánudaginn kemur er vorfrí í skólanum og því hvorki skóli né Regnbogaland starfandi þann dag.  
 
Þá er búið að ákveða að árshátíð nemenda í 7. - 10. verði haldin þann 18. mars á Hótel Fransiskus. Undanfarið höfum við verið að leita tilboða hjá veitingahúsum bæjarins vegna matarins. Við finnum fyrir spenningi hjá nemendum sem eru að fara af stað í undirbúninginn.  
 
Að lokum er búið að ákveða þar sem við höfum ekki aðgang að Hótel Stykkishólmi þetta árið vegna framkvæmda að hver umsjónarkennari undirbúi viðburð þar sem ykkur foreldrum og forráðamönnum verður boðið að koma á annað hvort í raunheimum eða netheimum og upplifa einhvers konar dagskrá sem kennararnir undirbúa með nemendum sínum. Inn á viðburðinn þarf að greiða og viljum við stjórnendur biðja ykkur um að taka þessu boði vel þegar að því kemur. Þeir munu verða á mismunandi tímum hjá hverjum bekk fyrir sig. Hugsunin á bak við þetta er að hafa hátíð fyrir krakkana, fá ykkur með einhverjum hætti inn í skólann og upplifa það sem nemendur eru að gera og að lokum er um fjáröflun að ræða. Við þurfum á henni að halda til þess að standa straum að menningarferð og skíðaferð en í ár munu bæði 7. og 8. bekkur fara í skíðaferð og 5. og 6. bekkur í menningarferð.  
 
Tilkynningar  
 
Á dagskrá bæjarstjórnar í gær var samþykkt skipulagsbreyting um samrekstur Grunnskólans í Stykkishólmi og Tónlistarskóla Stykkishólms. Jóhanna Guðmundsdóttir hefur látið af störfum sem skólastjóri tónlistarskólans. Sú breyting verður gerð að staða skólastjóra tónlistarskólans verður lögð niður og í staðinn verður auglýst staða deildarstjóra. Skólastjóri grunnskólans verður skólastjóri beggja stofnanna. Staða deildarstjóra í grunnskólanum verður lögð niður og í staðinn verður auglýst staða aðstoðarskólastjóra.  
 
Vonandi njótið þið helgarinnar ?  
 
Berglind og Lilja Írena