Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir 
 
Þessi skólavika gekk svona í heildina vel þrátt fyrir að samræmd könnunarpróf hafi ekki gengið sem skyldi. Í gær kom svo tilkynning frá mennta- og menningarmálaráðherra þar sem fram kom að þeim hefur verið aflýst. Sjá hér: https://www.visir.is/g/20212083792d/sam-raemdum-profum-i-ensku-og-staerd-fraedi-af-lyst?fbclid=IwAR3eGvb0m9ec6EJ_O_HTSRYoZdtQhVqMNCymZJp-VqXAgLcSdcMCgh0jid4 
 
Nemendum verður hins vegar gefið tækifæri til að taka könnunarpróf í greinunum dagana 17. - 30. Apríl næstkomandi en það verður valkvætt og ber okkur skólanum að tryggja þá framkvæmd. Það er því í höndum nemenda og foreldra/forráðamanna þeirra að ákveða hvort þau taka prófin.  
 
Þá fór 8. bekkur í vel heppnaða skíðaferð norður á Dalvík en vegna veðurs komu þau fyrr heim en áætlað var.  
 
Á döfinni 
 
Árshátíð 7. - 10. bekkjar verður fimmtudaginn kemur 18. mars á Hótel Fransiskus. Skúrinn mun sjá um að koma með matinn og framreiða hann. Ballið verður síðan í skólanum á eftir. Nánari upplýsingar verða sendar í tölvupósti til foreldra/forráðamanna í næstu viku.  
 
Þá er verið að skoða hvort við getum ekki boðið nemendum í 1. - 6. bekk upp á ball og nýta aðstöðuna sem sett verður upp fyrir unglingana. Við munum einnig senda upplýsingar um þetta í næstu viku.  
 
Núna eru tvær vikur fram að páskaleyfi en síðasti kennsludagur fyrir páska verður föstudagurinn 26. mars.  
 
Tilkynningar  
 
Það er rétt að upplýsa ykkur um það að Lilja Írena er í veikindaleyfi til að minnsta kosti 6. apríl. Við óskum henni góðs bata.  
 
Fróðleiksmoli  
 
Í skólanum erum við með samskiptateymi sem er skipað skólastjóra, Klaudiu Gunnarsdóttur umsjónarmanni Regnbogalands, Magnúsi Bæringssyni æskulýðs- og tómstundafulltrúa og umsjónarmaður félagsmiðstöðvarinnar og Arnari Hreiðarssyni forstöðumanni íþróttamiðstöðvar. Teymið vinnur eftir eineltisáætlun skólans sem ber nafnið Skjöldur. Það er verkferill sem vinna á eftir og hægt er að sjá á eftirfarandi slóð inni á heimasíðu skólans: https://grunnskoli.stykkisholmur.is/library/Skrar/Stefnur-og-aaetlanir/Skj%c3%b6ldur%20Eineltis%c3%a1%c3%a6tlun%20GSS%20(1).pdf? 
 
Okkur finnst mjög mikilvægt að hafa þessa aðila með í teyminu þar sem snertifletir okkar eru margir. Við erum að vinna með sömu einstaklingana og því meira sem við tölum saman og upplýsum því betra fyrir okkur öll og þá ekki síst nemendur okkar.  
 
Að lokum höfum við aðgang að Ingveldi Eyþórsdóttur yfirfélagsráðgjafa hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga til þess að koma inn í mál með snemmtæka íhlutun.  
 
Vonandi verður helgin ykkur góð ?  
 
Berglind