Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir 
 
Þá er enn ein góð vika að baki í skólastarfinu. Meðal þess sem bar í vikunni var að 8. bekkur kom heim í dag eftir vel heppnaða daga í Ungmennabúðum á Laugarvatni. Þá fengum við góða fræðslu frá Heilsulausnum um vímuefnagjafa í samstarfi við Félagsmiðstöðina X-ið. Ég er mjög ánægð með það samstarf sem náðst hefur með forstöðumanni X-isins. Ég tel mjög mikilvægt að við séum með gott samstarf því það er jú þannig að við erum að vinna með sömu krakkana.  
 
Á döfinni  
 
Tónlistarskólinn mun koma með kynningu á starfi sínu fyrir nemendur í 1. - 5. bekk næstkomandi þriðjudag.  
 
Þá verðum við með vorskóla fyrir nemendur komandi 1. bekkjar. Við hlökkum til að fá þau til okkar og vonum að upplifun þeirra af skólastarfinu verði góð. Vorskólinn mun standa yfir frá mánudegi til miðvikudags og endar hann með fundi með foreldrum á meðan nemendur kynnast starfi Regnbogalands.  
 
Tilkynningar  
 
Það er rétt að taka það fram að við erum í vandræðum með skjöl sem eiga að vera inni á heimasíðunni eins og skóladagatalið því þau opnast ekki. Það er verið að skoða hverju veldur og hvort hægt sé að kippa þessu í liðinn með auðveldum hætti. Reyndar er í smíðum ný heimasíða fyrir Stykkishólmsbæ. Ef þið lendið í vandræðum ekki hika við að hafa samband við okkur og við sendum á ykkur beint þau skjöl sem þið eruð að leita eftir.  
 
Uppstigningardagur verður næsta fimmtudag 13. maí og þar af leiðandi frí þann dag.  
 
Að lokum vil ég biðja foreldra sem keyra börnin sín í skólann að nota sleppistæðin frekar en önnur stæði þrátt fyrir að það þurfi aðeins að bíða. Með fyrir fram þökk.  
 
Njótið helgarinnar ?  
Berglind