Kæru vinir
Þá er allt komið á fullt aftur í skólanum eftir páskaleyfi og vonandi hafið þið öll notið frísins vel.
Við höfum fengið fyrirspurnir varðandi uppgjör árshátíðar. Ykkur til upplýsingar höfum við ákveðið að opna bókhaldið:
Innkoma = 395.500
Kostnaður = 287.000
Afgangur = 108.500
Afgangur af árshátíðinni hefur verið notaður til að styrkja menningarferð 5. bekkjar og skíðaferð 7. bekkjar. Árgangar í grunnskólanum eru mismunandi stórir og því hefur verið ákveðið að búa til skíðaferðar- og menningarsjóð og styrkja hvern nemanda um 3500 krónur. 7. bekkur fékk því 42.000 krónur. 5. bekkur fór í menningarferð í fyrra vegna samkennslu og því eigum við 66.500 krónur í sjóðnum til að koma til móts við stóra árganga komandi ára.
Í morgun tóku nemendur í 10. bekk hina margumræddu PISA-könnun. Könnunin er tekin í 10. bekk þriðja hvert ár. Einhver umræða hefur verið um það undanfarið að nemendur séu ekki að leggja sig fram í könnuninni og það megi útskýra þá útkomu sem Ísland hefur fengið. Ekki ætlum við neitt að dæma um það en við ræddum um mikilvægi þess við nemendur að standa sig eins vel og þau gætu. Til þess að þau fengju nú eitthvað fyrir sinn snúð var Anna Margrét með slökun fyrir prófið og eftir prófið fengu þau veitingar úr bakaríinu.
Góða helgi
Berglind og Lilja Írena