Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir!

Danskennslu vetrarins lauk að vanda með danssýningu á þriðjudaginn. Eins og áður stóðu nemendur sig vel og var sérstaklega gaman að sjá eldri nemendur styðja þau yngri. Skemmtilegt samstarf sem við getum vonandi haldið áfram með næsta vetur.

Nemendur í 4. bekk þreyttu samræmd próf í vikunni.

Árleg brunaæfing var haldin síðasta miðvikudag. Það er mjög gott að vera með æfingu svo snemma á skólaárinu til þess að sníða af vankanta.

Okkur hefur borist tilkynning um njálg hjá nemendum í skólanum. Vinsamlegast fylgist með hjá ykkur börnum. Sjá upplýsingar um njálg hér: http://doktor.is/sjukdomur/njalgur

Við viljum minna alla á að nú fer dimmasti tími ársins í hönd. Þá er gott að huga að ljósum á hjólum og endurskinsmerkjum á fatnað.

Með því að smella hér eru upplýsingar frá Samgöngustofu um létt bifhjól sem við vorum beðin um að koma á framfæri við ykkur foreldra/forráðamenn.

Miklar hugarfarsbreytingar hafa átt sér stað á undanförnum áratugum hvað varðar umferðaröryggi og má segja að langflestir sýni leiksvæði nemenda virðingu og viljum við þakka fyrir það. Hins vegar verðum við starfsfólk skólans vör við að ökutækjum sé ekið inn á skólalóðina á skólatíma. Farið hefur verið upp á gangstétt, upp á grasflöt og jafnvel kringum fánastöngina, á meðan börn eru þar að leik. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikil hætta skapast af þessu. Börn hafa ekki þroska til að passa sig í svo óútreiknanlegri umferð og jafnframt getur reynst erfitt að sjá þau minnstu, sérstaklega þegar bakkað er.

Í næstu viku fáum við í heimsókn til okkar listamenn sem eru á vegum verkefnisins List fyrir alla. Allir nemendur í 1. - 10. bekk munu taka þátt í því í ár. Einnig verður Barnamenningarhátíð á vegum afmælisnefndar leikskólans. Nemendur okkar í 1. bekk munu taka þátt í samstarfsverkefni grunnskólans, leikskólans, tónlistarskólans og fleiri aðila.

Hafið það sem allra best um helgina
Berglind og Lilja Írena