Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir
Um daginn var Brynja hjúkrunarfræðingur ásamt Hildi Láru Ævarsdóttur hjúkrunarnema með fræðslu um rafsígarettur í 9. - 10. bekk. Nauðsynleg fræðsla að okkar mati og teljum við að foreldrar og skólinn verði að vera á varðbergi vegna mikillar aukningar á slíkum reykingum á landsvísu. Það er margt varðandi þessar reykingar sem líkist því þegar hefðbundnar sígarettur komu á markað, t.d. það að þær áttu að vera skaðlausar með öllu. Annað kom svo á daginn. Það eru alls konar efni í rafsígarettum sem ekki er að fullu búið að rannsaka.
Í gær fóru nemendur 8. ? 10. bekkjar á Tæknimessu í boði Fjölbrautaskóla Vesturlands og fyrirtækja á Akranesi. Viðburðurinn er liður í að kynna iðn- og tækninám fyrir elstu bekkjum grunnskólans með því markmiði að fjölga þeim sem velja slíkt nám að loknu grunnskólanámi.
Á morgun er Þjóðhátíðardagur Póllands. Að því tilefni munu pólskir nemendur okkar fara upp á leikskóla í dag kl. 14 og taka þátt í viðburði sem búið er að skipuleggja þar.
Eins og eflaust margir muna breyttum við skipulaginu í skólanum í vor þannig að ekki eru lengur þrjár annir eins og verið hefur undanfarin ár. Nú vinnum við eftir tveggja anna kerfi sem þýðir að ekki er hefðbundið námsmat með prófadögum í nóvember. Hins vegar er alltaf símat í gangi. Hefðbundið námsmat með tveimur prófadögum hjá 7. ? 10. bekk verður eftir miðjan janúar ásamt skipulagsdegi með foreldraviðtölum. Þrátt fyrir þetta ætlum við að bjóða upp á foreldraviðtöl næstu tvær vikurnar og hafið þið eflaust flest fengið upplýsingar um þetta frá umsjónarkennurum.
Að lokum minnum við á hlýjan fatnað því núna er virkilega farið að kólna hjá okkur.
Góða helgi
Berglind og Lilja Írena