Kæru vinir.
Í gær vorum við með uppbrotsdag og héldum upp á Dag íslenskrar tungu. Meðal annars unnu nemendur með málshætti, þjóðsögur, dægurlagatexta, nýyrði og slangur. Farið var á dvalarheimilið og leiknir málshættir og átti heimilisfólk að geta í upp á um hvaða málshætti og orðtök var að ræða. Þá fóru nemendur á leikskólann og lásu fyrir krakkana þar og einhverjir æfðu íslensk sönglög og fóru í fyrirtæki og stofnanir og sungu. Alls staðar var vel tekið á móti okkur og þökkum við fyrir það. Dagurinn endaði á tónleikum lúðrasveitarinnar í Stykkishólmskirkju. Fyrir þann viðburð höfðu nemendur æft Heiðlóarkvæði eftir Jónas Hallgrímsson og var það sungið með undirspili sveitarinnar.
Þetta var vel heppnaður dagur en þó bar einn skugga á sem mig langar að biðja ykkur foreldra nemenda á unglingastigi að ræða heima. Það voru allt of margir nemendur sem gátu ekki borið virðingu fyrir því sem þeim var boðið upp á og voru með skvaldur, fætur uppi á stólum og eyðilögðu efnisskrár og hentu á gólfið. Að sjálfsögðu erum við ekki að tala um alla en að okkar mati var þetta of almennt.
Eins og þið hafið eflaust séð að þá var auglýst nýtt starf í Íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmspóstinum fyrir stuttu. Búið er að ráða í stöðuna og er ráðningin viðleitni í þá átt að bæta gæslu í búningsklefum. Við í skólanum fögnum þessu því við vitum hvað góð gæsla í búningsklefum er mikilvæg.
Í tilefni af þjóðhátíðardegi Póllands 11. nóvember færði Agniezska Imgront pólskukennari við skólann okkur bókagjöf frá pólska sendiráðinu. Virkilega góð gjöf sem á eftir að koma nemendum okkar til góða sem eru af pólsku bergi brotin.
Þessa vikuna og þá næstu eru foreldraviðtöl. Við viljum þakka öllum sem hafa gefið sér tíma til þess að koma og hitta umsjónarkennara til þess að fara yfir líðan nemenda og gengi þeirra í skólanum.
Þriðjudaginn næstkomandi verður Inga sálfræðingur með fyrirlestur í 8. ? 10. bekk um kvíða og notkun snjalltækja.
Að lokum viljum við minna á myndasafnið okkar inni á heimasíðunni: http://grunnskoli.stykkisholmur.is/nam-og-kennsla/myndasafn/
Hafið það sem allra best um helgina
Berglind og Lilja Írena