Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir.

Á þriðjudaginn var Inga sálfræðingur með fyrirlestur í 8. - 10. bekk um kvíða og þunglyndi. Það hefur örugglega ekki farið fram hjá neinum að kvíði og þunglyndi hafa færst í vöxt, ekki síst hjá ungu fólki. Okkur fannst mjög mikilvægt að opna umræðuna og vonum að hún muni halda áfram, bæði heima og í skólanum. Inga fór yfir einkenni kvíða og þunglynds og hvernig dagleg skjánotkun eykur líkurnar á þessum veikindum. Ef grunur leikur á að barnið ykkar sé að glíma við þessi veikindi hvetjum við ykkur til að hafa samband við Brynju hjúkrunarfræðing eða Sesselju verkefnastjóra sérkennslu.

Nú líður að aðventu með tilheyrandi hefðum. Það er eðlilegt að þessi álagstími okkar fullorðinna geti orðið til þess að við njótum hans ekki eins mikið en munum þá að margt af því sem við gerum á þessum tíma er hugsaður fyrir börnin. Við viljum því hvetja alla til huga að því sem skiptir mestu máli en það er samveran og að njóta smáu hversdagslegu hlutanna.

Árlegt jólaföndur foreldrafélagsins verður þriðjudaginn 28. nóvember fyrir 1. - 4. bekk og miðvikudaginn 29. nóvember fyrir 5. - 10. bekk.

Að lokum viljum við minna á endurskinsmerkin. Þau eru mjög mikilvæg þegar gengið er í skólann í myrkrinu.

Njótið helgarinnar
Berglind og Lilja Írena