Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir 
 
Þessi vika er búin að vera ótrúlega viðburðarrík. Nemendum í 1. - 9. bekk var skipt í 7 þemahópa þvert á aldursstig. Það hefur verið gaman að sjá svo aldursblandaða hópa vinna vel saman. Hóparnir 7 fjölluðu um leikföng, atvinnuhætti, bæjarstæðin í Stykkishólmi, matarmenningu, fatnaður, farartæki og skóla- og íþróttamál. 10. bekkur vann tímalínu um helstu atburði Íslandssögunnar frá 1918. Sýningin er í þessum skrifuðu orðum tilbúin og erum við stjórnendur ánægðar með afraksturinn og hlökkum til að taka á móti ykkur á morgun milli klukkan 11 og 14. Sýningin er staðsett á göngum skólans og í nokkrum stofum.  
 
 
Undanfarið hafa reglur um símanotkun og frímínútur verið endurskoðaðar og munu nýjar reglur taka gildi um áramót. Breytingarnar sem gerðar voru eru eftirfarandi: 
 
 -  1. - 7. bekkur fer út í hverjum frímínútum.  
 -  5. - 7. bekkur fær val í hádegishléi um að vera úti eða inni niðri. 
 -  Snjalltæki eru leyfð í 6. - 10. bekk. 
 -  Í frímínútum er heimilt að nota snjalltæki en slökkt skal vera á hljóði og titringi. 
 
Stranglega bannað er að dreifa myndum og myndskeiðum án samþykkis viðkomandi. 
 
Til viðbótar við breytingar á reglum verða sett borð og spil á ganginn fyrir framan og í Kompunni. Eftir áramót stendur til að bjóða upp á skákkennslu. Við vonum að þessar breytingar leiði til fjölbreyttari viðfangsefna fyrir nemendur í frímínútum og minnkandi farsímanotkun. 
 
Í viðhengi látum við fylgja með upplýsingar um Jólasveinalestur frá Menntamálastofnun sem við hvetjum alla til að taka þátt í.  
 
Hlökkum til að sjá ykkur á morgun  
Berglind og Lilja Írena