Kæru vinir
Að venju er búið að vera mikið í gangi í vikunni vegna jólaundirbúnings. Á þriðjudaginn var hinn árlegi helgileikur uppi í kirkju. 3. bekkur setti fæðingasögu Jesú á svið, nemendur úr Tónlistarskólanum spiluðu lög og eldri nemendur Leikskólans sungu. Stundin var hátíðleg og skemmtileg.
Í gær var jólasöngsalur þar sem sungin voru hefðbundin jólalög. Nemendur 9. bekkjar voru með kynningu á Jórunni Viðar tónskáldi. Hún samdi m.a. lagið við þuluna ?Það á að gefa börnum brauð? sem sungið var í kjölfarið. Æskulýðs- og tómstundafulltrúi tók samveruna upp á myndband og var því næst með viðburð á Dvalarheimilinu þar sem myndbandið var sýnt. Stefnt er á að streyma viðburðum sem þessum beint á Dvalarheimilið í framtíðinni.
Á mánudag og þriðjudag eru jólaþemadagar. Nemendur eru í skólanum samkvæmt stundatöflu en kennsla verður með jólalegu ívafi. Mikilvægt er að allir hafi hlý föt með sér því útivera verður meiri en vant er, m.a. verður farið í heimsókn í Norska húsið.
Miðvikudagurinn 19. desember verður síðasti skóladagur fyrir jólafrí. Þá verða litlu jólin haldin hátíðleg. Það er alltaf gaman að sjá nemendur prúðbúna á þessum degi. Mæting er klukkan 10:00 og eru þau búin fyrir hádegi. Dansað verður í kringum jólatréð og hver bekkur mun eiga stund í stofunum sínum. Nemendur mega koma með smákökur og drykk.
Með góðri aðventukveðju,
Lilja Írena og Berglind