Kæru vinir
Í vikunni voru samræmd könnunarpróf í 9. bekk og er skemmst frá því að segja að þau gengu vonum framar. Við höfðum búið okkur undir tæknivandamál enda gekk allt á afturfótunum í fyrra.
Við vorum með nokkra vinningshafa í vikunni. Natalía Mist Þráinsdóttir Norðdahl og Bæring Breiðfjörð Magnússon urðu hlutskörpust á skákmóti í 1. - 4. bekk. Bæring Breiðfjörð Magnússon var einn af tólf sem hlutu verðlaun í myndasamkeppni Mjólkursamsölunnar og fær bekkurinn 40.000 krónur í verðlaun. Þá lenti Tara Kristín Bergmann í öðru sæti í stóru upplestrarkeppninni á Snæfellsnesi. Við óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju.
Á mánudaginn verður fræðsla sem er samstarfsverkefni skólans og foreldrafélagsins. Við erum ótrúlega ánægð að eiga foreldrafélagið að í slíkum málum enda kostnaðarsamt að fá þess konar fræðslu út á land. Þau sem koma heita Bjarni Fritzson og Kristín Tómasdóttir. Þau munu kynjaskipta annars vegar 5. - 7. bekk og hins vegar 8. - 10. bekk og fjalla um sterka sjálfsmynd og samfélagsmiðla. Kl. 18 verður fræðsla fyrir foreldra/forráðamenn og kennara. Allir velkomnir ?
Á fimmtudaginn hefst Júlíönuhátíðin og munu við eiga fulltrúa á opnunarhátíðinni. Katla Júlía Kristjánsdóttir mun lesa upp ljóð eftir Júlíönu Jónsdóttur.
Á föstudeginum kl. 11 á bókasafninu verða lesnar upp sögur sem eru afrakstur vinnu Ævars Þórs Benediktssonar með nemendum í 4. - 7. bekk. Þá mun sýningin Ótti og hugrekki opna í glugganum í Skipavíkurbúð kl. 15 með myndverkum nemenda í 1. - 4. bekk. Klukkan 17 munu nemendur frá okkur lesa upp úr bókinni Ör eftir Auði Övu.
Ákveðið var að slá saman ferð á Skólahreysti og Samfestinginn og mun hópur nemenda úr 8. - 10. bekk fara ásamt Gísla Pálssyni, Ragnari Inga Sigurðssyni og Magnúsi Inga Bæringssyni fimmtudaginn 21. mars.
Góða helgi
Berglind og Lilja Írena