Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir  
 
Við viljum minna á útivistartímann. Núna er farið að dimma æ fyrr og því mikilvægt að allir virði hann. 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til klukkan 20:00 og 13 ? 16 ára til klukkan 22:00. 
 
Í gær fengum við góða gesti þegar þær Valgerður Rúnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir komu fyrir hönd verkefnisins List fyrir alla. Það er skólanum að kostnaðarlausu og tilgangurinn er að auka listframboð fyrir alla nemendur landsins. Þær voru með danssýningu og danskennslu. Virkilega vel heppnað. 
 
Í þessari viku hafa vinir okkar frá Kolding í Danmörku verið í heimsókn, bæði nemendur og kennarar. Heimsóknin gekk í alla staði vel og stóð uppúr að fara í siglingu með Særúnu og hringferð um Snæfellsnesið með viðkomu í Vatnshelli. 
 
Í dag komu elstu nemendur leikskólans en þau munu koma annað slagið í vetur og upplifa það hvernig er að vera í sköpun. Þetta er þróunarverkefni í samstarfi við leikskólann með styrk úr Sprotasjóði. Okkur þótti ánægjulegt að taka á móti þessum verðandi nemendum okkar og voru þau virkilega skapandi og flott. 
 
Á mánudaginn hefst verkefnið Göngum í skólann. Við hvetjum alla nemendur til að koma gangandi, hjólandi eða fljúgandi í skólann ? Keppni verður milli bekkja og skrá kennarar hverjir komu á tveimur jafnfljótum þann daginn. Verkefnið stendur yfir í þrjár vikur og í verðlaun er frjáls tími í íþróttum. Við hvetjum alla til að taka þátt í þessu heilsueflandi verkefni. 
 
Framundan eru foreldrafundir. Einhverjir bekkir eru búnir en aðrir eiga von á fundarboði fljótlega.  
 
Góða helgi  
 
Berglind og Lilja Írena