Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir  
 
Síðasta þriðjudag vorum við með undirbúna rýmingaræfingu án slökkviliðs. Þ.e. nemendur og starfsfólk vissi hvenær hún yrði. Æfingin gekk í flesta staði vel en einhverjir hnökrar komu upp sem við munum laga fyrir óundirbúnu æfinguna sem verður einhvern tímann á næstunni. Við viljum því biðja ykkur foreldra/forráðamenn að passa að það séu aukasokkar í töskum nemenda.  
 
Samræmd könnunarpróf voru haldin í 4. bekk í gær og í dag. Framkvæmd prófanna gekk vel og vorum við stolt af einbeitingu og vandvirkni nemenda okkar. 
 
Okkur hefur borist til eyrna að einhverjir nemendur á unglingastigi séu að fikta við að reykja rafrettur. Við viljum biðja ykkur foreldra að taka umræðuna heima. Hérna erum við að vinna í því að fá fræðslu til okkar.  
 
Í næstu viku verður skipulagsdagur miðvikudaginn 2. október. Þann dag verður allt starfsfólk á skólamálaþingi Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga sem haldið verður í Grundarfirði. Yfirskrift þingsins er Líðan - samskipti á vinnustað.  
 
Þann 9. október næstkomandi verður ljósmyndari hjá okkur og tekur bekkjarmyndir og einstaklingsmyndir. Okkur þætti gott að leyfisbeiðnum væri haldið í lágmarki þann daginn. Þessar myndir notum við t.d. á vitnisburðarblöð nemenda. 
 
Góða helgi  
 
Berglind og Lilja Írena