Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir 
 
Skólastarfið fer vel af stað. Við byrjuðum með söngsal fyrir 1. - 7. bekk þar sem sungin voru lög sem hæfa Þrettándanum. Þá var ýmislegt gert í tilefni af Þrettándanum eins og t.d. spilavist og grímugerð. Þá má geta þess að í 1. - 4. bekk vorum við með fyrirlesara í samstarfi við Norska húsið. Björk Bjarnadóttir þjóðfræðingur sagði nemendum gamlar íslenskar þjóðsögur og ævintýri. Það var ekki annað að sjá en að þeim líkað það vel og var hún spurð hvenær hún kæmi aftur.   
 
Eins og þið vitið hefur veðrið verið að leika okkur grátt og sér ekki fyrir endann á því. Við reynum eftir fremsta megni að fylgjast með og setja inn upplýsingar á vefinn okkar eða síðu skólans á Facebook. Gott væri að vita ef fólki finnst betra að fá slíkar upplýsingar í tölvupósti.  
 
Í næstu viku fara nemendur í 7. - 10. bekk á leiksýningu í Frystiklefanum á Hellissandi. Þetta er samstarfsverkefni skólanna á norðanverðu Snæfellsnesi og standa þeir allir straum að ferðakostnaði. Sýningin heitir Ókunnugur og er samstarfsverkefni við Kvennaathvarfið. Hún fjallar á táknrænan en ekki predikandi hátt um kynhegðun, samskipti kynjanna og ofbeldi. Eftir sýninguna verða umræður.  
 
Njótið helgarinnar  
 
Berglind og Lilja Írena