Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir
Þá er vel heppnaðri árshátíðarviku lokið. Eldri nemendurnir héldu sína árshátíð á hótelinu en að þessu sinni í minni salnum vegna framkvæmdanna í stóra salnum. Það heppnaðist með eindæmum vel og var þemað að þessu sinni Hollywood. Þá var ball í skólanum sem heppnaðist einnig vel. Hugsa þurfti árshátíðarviku yngri nemenda upp á nýtt vegna framkvæmda á hótelinu og voru því engin atriði í ár. Þess í stað undirbjuggu þau þrautir og voru GSS leikarnir haldnir í gær. Á miðvikudaginn var ball og önnur afþreying í skólanum. Þessi skapandi lausn heppnaðist mjög vel. Í heild höfum við upplifað mikla gleði í skólanum í þessari viku.
Mikilvægt að lesa
Búið er að senda tölvupóst vegna hugsanlegs verkfalls, við viljum biðja ykkur að lesa hann vel.
Varðandi kórónaveiruna höfum við lagt okkur fram um að gera ekki mikið úr henni við nemendur. Komið er handspritt víða um skólann, m.a. þar sem nemendur standa í röð í mötuneyti. Nemendur eru hvattir til handþvottar, sérstaklega fyrir nesti. Nemendur skammta sér ekki lengur sjálfir í hádeginu. Þetta eru þær aðgerðir sem við höfum farið í en látum sem minnst á þeim bera. Svo virðist sem veiran herji ekki illa á börn og er það vissulega léttir. Nánari upplýsingar má finna hér: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item39277/Upplysingar-fyrir-born-og-ungmenni
Á döfinni
Á mánudaginn er vorfrí og vonum við að nemendur njóti þess eftir annasamar vikur. Enn er langt í páskafrí og teljum við mikilvægt að hlaða batteríin.
9. bekkur þreytir samræmd könnunarpróf þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag og munum við gera okkar besta til að taka tillit til þeirra þessa daga.
Góða helgi
Lilja Írena og Berglind