Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir

Í gær barst okkur þrívíddarprentari að gjöf frá Sambandi sveitarfélaga á Vesturlandi. Við erum ekkert smá glöð með gjöfina og munum nýta hana í skólastarfinu næsta skólaár.

Við erum glöð hversu margir foreldrar mættu á sýningar barna sinna í dag, það er svo sannarlega uppskeruhátíð þessa dagana.

Eflaust hefur ekki farið fram hjá ykkur tilkoma nýrra persónuverndarlaga. Þó nokkur vinna hefur nú þegar farið fram vegna þeirra hér í skólanum. Búið er að skrifa undir nýja upplýsingaöryggisstefnu og vinna áhættumat. Hér má finna stefnuna á heimasíðu skólans:

/static/files/Gamli/Skrar/SKMBT_36318052507120.pdf

Næsta vika verður síðasta vika skólaársins. Á mánudaginn verður hefðbundinn kennsludagur og þurfa nemendum að koma með íþrótta- og sundföt þann dag. Þriðjudag og miðvikudag verðum við með uppbrot þar sem nemendur munu vinna alls kyns skemmtileg verkefni bæði inni og úti. Athugið að síðasti dagur í Regnbogalandi verður miðvikudaginn 30. maí. Fimmtudaginn 31. maí verður skipulagsdagur og síðan endum við vikuna á skólaslitum. Þau verða í Stykkishólmskirkju föstudaginn 1. júní kl. 17 og eru allir foreldrar velkomnir á þau.

Í sumar ætlar Amtbókasafnið að vera með svokallaðan sumarlestur. Nemendur munu fá kynningu á honum á bókasafninu á mánudag. Við viljum hvetja alla til þess að vera með og sinna heimalestri í sumar. Mælingar á lestrarhraða nemenda er oft verri að hausti en vori og því þykir okkur þetta mjög vel til komið.

Við viljum þakka fyrir góðan skólavetur og hlökkum til að hitta ykkur aftur í ágúst. Skólinn hefst að nýju 24. ágúst.

Hafið það sem allra best í sumar
Berglind og Lilja Írena