Öskudagurinn

Kæru foreldrar og forráðamenn

 

Í ljósi aðstæðna tók foreldrafélag grunnskólans í Stykkishólmi ákvörðun um að gera breytingar á hefðbundinni öskudagsdagskrá í samvinnu við grunnskólann og félagsmiðstöðina.

Fyrirtæki bæjarins verða ekki heimsótt þetta árið með tilheyrandi skrúðgöngu og söng. Þau styðja engu að síður vel við okkur með glaðning sem grunnskólabörn fá afhentan í lok skóladags.

Nemendum grunnskólans verður boðið upp á öskudagsþrautabraut í íþróttahúsinu, í fámennum hópum á skólatíma og í umsjón starfsfólks. Þar verður kötturinn einnig sleginn úr tunnunni, a.m.k. gerðar tilraunir til þess.

Boðið verður upp á andlitsmálingu fyrir yngstu nemendur skólans sem og handleiðslu í gerð öskudagspoka fyrir áhugasama. Að auki verður fjölbreytt afþreying í boði fyrir alla nemendur fram til kl. 13:00 en þá lýkur skóladeginum.

Félagsmiðstöðin mun síðan í samvinnu við tómstundaval efna til grímudansleiks fyrir nemendur 7.-10.bekkjar.

Allar upplýsingar um öskudaginn er að finna í föstudagspósti stjórnenda en gott er að hafa þessi atriði í huga:

  • Engin hefðbundin kennsla er á öskudaginn og skóladegi lýkur kl. 13:00
  • Regnbogaland er með hefðbundinn opnunartíma
  • Allir eru hvattir til að koma í búningum og nemendur mega koma málaðir í skólann
  • Það má koma með sparinesti þennan dag. Sparinesti er ekki nammi og gos. Sparinesti getur verið safi og sætabrauð.
  • Leikfangavopn eru leyfð með þessum takmörkunum: Vopnin má bara nota í íþróttahúsinu þann tíma sem hver hópur fær úthlutað. Þess á milli eiga leikfangavopnin að vera í töskum nemenda. Við treystum því að þið farið vel yfir þessa reglu heima áður en þið sendið barnið ykkar af stað með umrædda fylgihluti.
  • Andlistmáling verður í boði í upphafi dags fyrir 1.-5.bekk. Sjálfboðaliðar úr 7.-9.bekk sjá um að mála ásamt starfsfólki skólans.
  • Nammi poki í boði fyrirtækja í Stykkkishólmi, verður afhentur hverjum nemanda í lok dags.
  • Matur verður á hefðbundnum tíma samkvæmt stundaskrá sem þýðir að 5. og 6. bekkur fer heim strax að loknum matartíma sem er frá 12:30 ? 12:50