Júlíana - hátíð sögu og bóka fer fram um helgina

Júlíana - hátíð sögu og bóka fer fram í Stykkishólmi komandi helgi, dagana 24.-26. mars.
Dagskrá hátíðarinnar er hlaðin fjölda áhugaverðra viðburða og má gera ráð fyrir iðandi mannlífi í bænum um helgina. Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru Einar Kárason rithöfundur og sagnaskáld, Bergsveinn Birgisson rithöfundur og doktor í norrænum fræðum, Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur, Anna Melsteð þjóðfræðingur, nemendur Grunnskólans í Stykkishólmi, Litla Lúðrasveitin, Svenni Davíðs og Söngsveitir Blær svo fátt eitt sé nefnt.
Dagskrá hátíðarinnar og nánari upplýsingar má finna á facebooksíðu hátíðarinnar.

Á myndinni hér að ofan má sjá Kött Grá Pje sem var gestur hátíðarinnar árið 2017. Í aðdraganda hátíðarinnar dvaldi kötturinn á Hótel Egilsen, þar sem hjarta hátíðarinnar slær, og vann með nemendum grunnskólans að skáldskap og framkomu. Hátíðin hefur alla tíð lagt mikið upp úr samstarfi við Grunnskólann í Stykkishólmi og nú í ár stíga nemendur 5.-10. bekkjar á stokk á Amtsbókasafninu undir handleiðslu Gunnars Theodórs Eggertssonar rithöfundar.