Jólabasar

Nemendur á unglingastigi héldu jólabasar fimmtudaginn 11. desember. Var það hluti af Stykkismixi sem er samþætt námsverkefni í öllum bekkjum unglingastigs. Að þessu sinni snerist verkefnið um að skapa verðmæti úr verðlausum efnivið og safna fyrir góðgerðarstarf.
Nemendur byrjuðu á því að kynna sér ýmis góðgerðarsamtök og hvernig þau starfa. Bekkirnir tilnefndu nokkur samtök og kusu að lokum hvaða samtök þau vildu styrkja. Björgunarsveitin Berserkir urðu fyrir valinu. Eftir helgi munu nemendur afhenda Berserkjum styrkinn og verður upphæðin þá kunngjörð.
Basarinn gekk vonum framar. Nemendur höfðu föndrað ýmislegt skraut, bakað kökur, gert heitt súkkulaði og safnað vinningum í happadrætti. Þau skreyttu stofurnar sínar og buðu svo gestum og gangandi að njóta í huggulegri jólastemningu. Nokkrir nemendur tóku sig einnig til og sóttu hljóðfæri og spiluðu fyrir gesti.
Sem fyrr segir er verkefnið samsett úr mörgum námsgreinum og áttu nemendur ekki eingöngu að föndra. Þau skiluðu m.a. skýrslum um sjálfbærni og umhverfisvitund, áætlun um kostnað og hagnað, þau lærðu um mikilvægi samfélagsvitundar og hlutverk sín sem borgarar og einnig kynntu þau sér jólahefðir annarra landa.
Við þökkum einstaklingum og fyrirtækjum fyrir veitta aðstoð auk öllum þeim sem kíktu til okkar á basarinn.

Kennarar, stuðningsfulltrúar & nemendur á unglingastigi