Föstudagspóstur skólastjórnenda

Kæru vinir!
 
Það er óhætt að segja að veturinn hafi gert vart við sig þessa vikuna með snjókomu, hálku og kulda og rafmagnsleysi. Myrkrið heimsótti okkur í grunnskólanum líka í gær og þrátt fyrir að við séum þessu óvön þá gekk allt vonum framar og á endanum þótti þetta mikið fjör á meðal nemenda.
 
Við héldum upp á dag íslenskrar tungu á miðvikudaginn með skemmtilegri dagskrá í kirkjunni okkar. Frekari upplýsingar um þann atburð má sjá á heimasíðu grunnskólans - http://gamli.stykkisholmur.is/grunnskolinn/. 
 
Miðönn hefst á mánudaginn 21. nóvember og námsmati haustannar verður lokið með viðtölum á miðvikudaginn 23. nóvember þar sem 1. ? 5. bekkur fá skipulögð viðtöl með umsjónarkennara. Kennarar í 6. ? 10. bekk munu bjóða upp á viðtöl sama dag frá kl. 8.30 ? 12.30 þar sem í boði verður að mæta og fara yfir stöðu mála munnlega með hverjum kennara fyrir sig. Engir fastir tímar eru skráðir á þau viðtöl en við hvetjum alla til að koma og nýta sínar 10 mínútur með hverjum kennara fyrir sig.  
 
Í næstu viku, miðvikudaginn 23. nóvember, er starfsdagur í grunnskólanum og verður sá dagur helgaður viðtölum vegna stöðumats. Við munum verða með óskilamuni í anddyrinu og viljum biðja fólk um að fara yfir þá því það hefur safnast mikið upp hjá okkur. 
 
Þar sem að við erum alltaf að reyna að gera góða hluti betri langar okkur að biðja ykkur að hafa Heilsdagsskólann okkar í huga ef þið standið í tiltekt og þurfið að losa ykkur við leikföng. Við tökum glöð á móti öllu dóti. 
 
Í gær fengum við skemmtilega heimsókn frá fyrrverandi 10. bekk sem kom fyrr heim úr Grundarfirði vegna rafmagnsleysins. Við höfum stundum fengið svona heimsóknir og getum við ekki sagt annað en að þær hlýja okkur um hjartaræturnar. Þetta eru frábærir krakkar sem við eigum. 
 
Að lokum minnum við á könnunina okkar sem verður opin til miðnættis. Endilega nýtið ykkur tækifærið til þess að hafa áhrif. 
 
Vonum að þið eigið góða helgi!
 
Berglind og Drífa Lind