26.01.2017
Kæru vinir!
Við byrjuðum þessa viku á því að koma jólatré skólans upp og fékk 10. bekkur það hlutverk að skreyta það. Seinnipart mánudags og þriðjudags var jólaföndur bekkjanna. Notarleg jólastemning og glæsileg listaverk sem mynduðust þar.
Haldinn var söngsalur í dag sem byrjaði á frábæru skemmtiatriði frá Sölva og Hirti, nemendum úr 3. bekk. Við sungum svo og dönsuðum saman.
Í næstu viku verður kósý vika á vegum Nemendaráðs. Mánudagurinn verður ?lazy monday?. Á þeim degi eru allir, nemendur og starfsmenn, hvattir til að mæta í kósý fatnaði. Miðvikudagurinn verður jóladagur þar sem allir eru hvattir til að mæta í einhverju jólalegu og svo líkur vikunni á jólahófi þar sem öllum nemendum verður boðið í heitt súkkulaði, piparkökur og jólasögu.
Helgileikur 3. bekkjar verður sýndur þriðjudaginn 6. desember kl. 10.30 í Stykkishólmskirkju. Elstu börn leikskólans og nemendur í 1. - 5. bekk munu koma og horfa á sýninguna. Einnig eru allir velkomnir sem vilja.
Skemmtileg nýbreytni mun verða í næstu viku þar sem upplýsingatæknival unglingastigs mun fara í heimsókn á Dvalarheimilið og kenna elstu kynslóð bæjarins á nýjustu tækni. Skemmtilegar vikur framundan hjá okkur!
Við viljum minna á mikilvægi þess að láta starfsfólk vita þegar börn eru sótt í Heilsdagsskólann. Og þá sérstaklega þegar verið er að taka vini heim. Einnig viljum við biðja þá sem eiga eftir að skila inn upplýstu samþykki á myndbirtingum að koma á skrifstofu skólans og fá eintak til að svara.
Njótið aðventunnar!
Berglind og Drífa Lind