Föstudagspóstur skólastjórnenda

Kæru vinir

Nemendur í 8. bekk komu endurnærð til baka frá Laugum í dag. Vikan hjá þeim gekk mjög vel og hefur eflaust verið þeim lærdómsrík.

Í þessari viku hafa nemendur skólans verið að útbúa verkefni í máli og myndum fyrir Júlíönuhátíð sem sett verður fimmtudaginn 16. febrúar. Þar er Þorpið mitt, þorpið þitt viðfangsefni hátíðarinnar. Atli Sigþórsson betur þekktur sem Kött Grá Pjé mun skemmta sér og okkur hinum með ljóðapælingum ásamt unglingum skólans í gömlu kirkjunni á föstudaginn kl. 11.00. Klukkan 15.00 sama dag mun opna sýning á verkum nemenda á yngsta stigi á Amtsbókasafninu.

Fimmtudaginn 16. febrúar fær 10. bekkur heimsókn frá fulltrúum FSN þar sem skólinn verður kynntur.

Nokkrir starfsmenn skólans munu gera sér ferð í Borgarnes á fyrirlestur um geðheilbrigði efstu bekkja grunnskóla. Geðfræðslufélagið Hugrún, Geðhjálp og Rauði krossinn standa fyrir kynningu og er kennurum eldri nemenda í grunnskóla og framhaldsskólakennurum boðið að koma.

Þá bárust okkur leikföng í Heilsdagsskólann og viljum við þakka kærlega fyrir.

Að lokum viljum við minna alla á endurskinsmerkin í myrkrinu!

Góða helgi! 

Berglind og Drífa Lind