Föstudagspóstur skólastjórnenda

Kæru vinir
Þessi vika byrjaði afskaplega skemmtilega þegar okkar hraustu krakkar í 8. - 10. bekk tóku sig til og sigruðu undankeppnina í Skólahreysti. Með því fer þessi frábæri hópur sem fulltrúar Vesturlands í úrslitakeppnina sem haldin verður 26. apríl nk. Við erum að rifna úr stolti!
Grunnskólinn í Stykkishólmi hélt menntabúðir á miðvikudaginn sem voru vel sóttar af kennurum og starfsfólki annarra skóla á Vesturlandi og víða. Nokkrir kennarar frá okkur sýndu það sem þeir hafa verið að vinna að með nemendum sínum og vöktu mikinn áhuga gestanna. Enda frábært starfsfólk sem við eigum!
Íþróttaráð skólans stóð fyrir handboltamóti sem fram fór á miðvikudaginn síðasta. Þar voru blönduð nemendalið frá 7. - 10. bekk og eitt starfsmannalið. Skemmtileg tilbreyting.
Stóra upplestrarkeppnin verður haldin í næstu viku, fimmtudaginn 23. mars, í Stykkishólmskirkju. Þar eru nemendur úr 7. bekk keppendur en þau héldu sína upplestrarkeppni í gær. Þrír fulltrúar og einn varamaður fara sem fulltrúar okkar skóla í keppnina í næstu viku. Hvetjum alla til að þess að mæta!
Í dag héldum við söngsal þar sem 4. og 5. bekkingar sýndu okkur verkefni sem þau unnu í heimilisfræði um Græna skráargatið. Eftir það sungum við svo íslensku júróvisjónlögin sem lentu í þremur efstu sætunum í íslensku söngvakeppninni.
Á sunnudaginn 19. mars fara 4. og 5. bekkur í menningarferð til Reykjavíkur og koma til baka mánudaginn 20. mars.
Góða helgi!
Berglind og Drífa Lind