24.03.2017
Kæru vinir!
Þessi vika var heldur betur fjölbreytt og skemmtileg hjá okkur í grunnskólanum. Nemendur í 4. og 5. bekk komu brosandi glöð heim á mánudaginn úr menningarferð til Reykjavíkur sem heppnaðist einkar vel.
Alþjóðlegur dagur gegn kynjamisrétti var haldinn þriðjudaginn 21. mars og tókum við þátt í þeim degi með því að haldast í hendur hringinn í kringum skólabygginguna, #höndíhönd.
Við segjum stolt frá því að tveir af okkar nemendum í 7. bekk komust á pall í Stóru upplestrarkeppninni sem haldin var við hátíðlega athöfn í Stykkishólmskirkju í gær. Dagný Inga sigraði keppnina og Símon Andri hreppti 2. sætið. Algjörlega frábær árangur hjá öllum okkar keppendum sem stóðu sig rosalega vel.
Lionsklúbburinn Harpan afhenti grunnskólanum hrærivél að gjöf. Vélin kemur sér afar vel í heimilisfræðikennslu skólans og erum við afskaplega glöð og full þakklætis.
Í næstu viku er komið að árshátíð nemenda. Að venju skiptum við henni fyrir yngri og eldri nemendur. Þriðjudaginn 28. mars verður hátíð 1. - 6. bekkjar og hefst hún kl. 18 með skemmtiatriðum bekkjanna. Eftir skemmtunina verður diskótek sem lýkur kl. 19:45. Hátíð 7. - 10. bekkjar verður miðvikudaginn 29. mars kl. 19:00. Miðaverð fyrir þau yngri er krónur 500 og 3000 fyrir eldri.
Njótið helgarinnar
Berglind og Drífa Lind