Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir
Þá er árshátíðarvikunni lokið. Þetta er búið að vera meiriháttar. Á miðvikudagskvöld var árshátíð 1. - 6. bekkjar og voru mörg atriði flutt fyrir fullu húsi, það sem stendur uppúr er gleði nemenda, þetta var svo sannarlega þeirra hátíð. Á fimmtudagskvöld var árshátíð 7. - 10. bekkjar og var hún mjög hátíðleg. Hún endaði með balli í Stykkinu og kom sú nýjung vel út, dansað var langt fram eftir kvöldi.
Þær upplýsingar hafa borist frá Menntamálaráðuneytinu að nemendum stendur til boða að taka aftur samræmdu könnunarprófin í íslensku og ensku eftir þau tæknilegu mistök sem áttu sér stað. Við verðum í sambandi við foreldra/forráðamenn 9. bekkjar um það.
Í næstu viku munu fulltrúar Grunnskólans í Stykkishólmi keppa í Skólahreysti. Við hvetjum sem flesta nemendur í 8. - 10. bekk að fara með sem stuðningslið. Takmörkuð sæti eru í rútunni og gildir hér reglan "fyrstur kemur fyrstur fær". Nánari upplýsingar um það má finna í pósti sem sendur var út fyrr í vikunni.
Við erum stolt að segja frá fræðslu um sjálfsmynd sem stendur til boða í næstu viku. Foreldrar eru eindregið hvattir til að koma 21. mars klukkan 18.00 og þyggja þessa fræðslu. Nemendur 7. - 10. bekkjar mun fá fræðslu um morguninn (fyrir Skólahreystiferðina) og starfsfólk fær fræðslu á hefðbundnum starfsmannafundi þennan sama dag. Hér er kjörið tækifæri fyrir samfélagið til að stilla saman strengi í þessu mikilvæga málefni.
Við erum að vinna úr niðurstöðum Skólapúlsins, kærar þakkir fyrir þátttökuna. Við erum strax búin að sjá nokkur atriði sem við getum brugðist við. Betur sjá augu en auga.
Góða helgi,
Lilja Írena og Berglind