Vikupóstur stjórnenda

Kæru vinir

Í næstu viku verða skemmtilegu dagarnir þrír, bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Að venju munum við ljúka kennslu um hádegið. Þ.e. kl. 11:50 hjá nemendum í 5. - 10. bekk og kl. 12:30 hjá nemendum í 1. - 4. bekk. Við höfum fellt niður sund og íþróttir þennan dag svo nú er ekkert því til fyrirstöðu að leyfa nemendum að koma með andlitsmálningu sem oft er punkturinn yfir i-ið í öskudagsbúningum.

Þá ætlum við að endurtaka svokallað Lýðræðisþing næstkomandi fimmtudag þar sem nemendur í 8. - 10. bekk munu ræða ýmis mál sem varða þau í skólanum.

Við höfum endurskoðað lyfjamál í skólanum og sett okkur eftirfarandi reglu: Ef nemendur þurfa á lyfjum að halda hringja þeir í foreldra/forráðamenn sem koma með þau. Nemendum er ekki leyfilegt að vera með lyf í skólanum. Skólinn gefur nemendum ekki lyf. Undantekning er adrenalínspennar fyrir nemendur með bráðaofnæmi og geymir skólinn þau.

Við fengum fyrirspurn um nafnið á þessum upplýsingapósti sem við sendum út reglulega. Áður kölluðum við hann föstudagspóst stjórnenda en þar sem við sendum hann ekki alltaf út á föstudegi ákváðum við að breyta nafninu í vikupóst stjórnenda. Þannig að ef einhver ykkar hefur verið að velta þessu fyrir sér að þá er skýringin komin.
Hafið það sem allra best um helgina
Berglind og Lilja Írena