Erlent samstarf

Erlent samstarf

Vinabæjarsamstarf við Kolding

Almennt um ferðina

Samstarf hefur lengi verið á milli Grunnskólans í Stykkishólmi og grunnskólanna í Kolding, vinabæ Stykkishólms í Danmörku. Hefur sú hefð haldist, svo til undantekningarlaust, frá 1995 að nemendaheimsóknir hafa verið á báða bóga. Nemendur okkar hafa tekið á móti nemendum frá Kolding, sýnt þeim bæinn og unnið ýmis verkefni með þeim. Danski hópurinn skoðar svo á eigin spýtur áhugaverða hluti á Suðurlandi. Á sama hátt taka þau svo á móti okkar nemendum, sýna þeim bæinn sinn og vinna svo saman verkefni í Kolding. Venjar er svo að íslenski hópurinn skoði sig um í tvo til þrjá daga annars staðar í Danmörku áður en heim er haldið.
Ferðin er farin í lok skólaárs 9. bekkjar og tökum við á móti dönskum vinum okkar í upphafi næsta skólaárs. Foreldrar og nemendur sjá sjálfir um fjáröflun fyrir ferðina og er kleinusala 9. bekkjar stærsti fjáröflunarliðurinn.

Markmið ferðarinnar og tenging við Aðalnámsskrá grunnskóla.

Á Íslandi læra börn dönsku í grunnskóla. Í Aðalnámskrá grunnskóla segir að tilgangurinn með kennslu í norrænum tungumálum, sé að viðhalda og styrkja tengslin við Norðurlandaþjóðirnar og að stuðla að því að Íslendingar eigi greiða leið að sameiginlegum markaði menntunar og atvinnu á öllum Norðurlöndunum. Jafnframt segir í Aðalnámskrá að ímynd Norðurlandanna sé sterk á alþjóðavettvangi og með það í huga sé norræn samvinna mikilvæg til að styrkja samnorræna ímynd og samkennd. Í dönskukaflanum í Aðalnámskrá er áhersla lögð á að kynna nemendur fyrir danskri menningu og dægurmálum og það er gert í dönsku í GSS. Í 8. – 10. bekk er unnið í þemum allt árið til að kynna matarmenningu, tónlist, jólahefðir, sögu, landafræði og allar mögulegar hefðir og venjur Dana.

Í fjölda ára hefur Grunnskólinn í Stykkishólmi stundað og hlúð að samstarfi við grunnskóla í vinabæ Stykkishólms, Kolding í Danmörku. Þetta eru dýrmæt tengsl sem nýtast okkur vel. Það eru nemendur 9. bekkjar GSS sem heimskækja nemendur í Kolding. Eins höfum við tekið á móti nemendum frá Kolding og átt góðar stundir með þeim hér heima. Þessar Danmerkurferðir eru alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá krökkunum og strax núna í byrjun skólaárs hófst undirbúningur fyrir nemendaskipti ársins 2016. Nemendur eru komnir í samband við pennavini og eru kennararnir líka í góðu sambandi. Hóparnir skiptast á upplýsingum og leysa af hendi sameiginleg verkefni. Í ferðunum sjálfum fá nemendur tækifæri til að sannreyna og skoða sjálf það sem þau hafa lært. Ekki bara tungumálið heldur allt hitt líka, t.d. hefðir og venjur, dægurmál og matarmenningu. Þetta er einstakt tækifæri og er það nýtt vel með því að tengja ferðina rækilega við danska fagið en jafnframt aðra mikilvæga þætti sem grunnskólinn hefur kennt nemendum, þ.e. sjálfstæði, samvinnu, tjáningu, nýtingu miðla og upplýsinga svo eitthvað sé nefnt. Fyrir flesta eru þessar ferðir meiriháttar hópeflisupplifun og fyrir marga er þetta fyrsta utanlandsferðin.