Sköpun

Á skólaárinu 2017 – 2018 var gerð tilraun með þverfaglegt aldursblandað fag sem fékk nafnið Sköpun. Þrjár megin ástæður þess að stjórnendum og kennurum þótti vert að fara í þessar breytingar voru að:
 
  • auka vægi list- og verkgreinakennslu í samræmi við aðalnámsskrá og viðmiðunarstundatöflu.
 
  • auka val hjá yngstu nemendum skólans.
 
  • þjálfa nemendur í skapandi vinnu, auka sjálfsstæði í vinnubrögðum, samþætta námsgreinar og auka gleði í kennslu.
 
Markmið Sköpunar er gleði, samvinna og sjálfstæði sem eru um leið einkunnar orð GSS.
 
Kennarateymið þetta fyrsta ár, samanstóð af fjórum sérgreinakennurum og tveimur umsjónakennurum. Nemendahópurinn var 1. – 4. bekkur, tæplega 80 nemendur.
 
Við byrjuðum með autt blað í upphafi skólaárs 2017 og þróuðum fagið í sameiningu. Það myndaðist ótrúlega jákvæð orka í kringum þessa vinnu og kennarateymið var bæði samstíga og skapandi. Boðið var upp á fjölbreyttar smiðjur s.s. eldur og ís, tækni og vísindi, kofasmíði og páskasmiðjur að ógleymdri árshátíðinni þar sem leikritið Blái hnötturinn var sýnt ásamt fjölbreyttum frumsömdum fjölleikhúsatriðum. Sú nýbreytni fylgdi nýju fyrirkomulagi árshátíðar að nemendur fengu tækifæri til þess að velja að stíga á stokk eða vera með í búninga- og leikmyndagerð ásamt því að standa sjálf fyrir hárgreiðslu og förðun á sjálfri sýningunni.
 
Svo mikil var ánægja nemenda með fagið að ákveðið var að bæta í og bjóða nemendum upp í 7. bekk Sköpun. Við erum í miðju þessu innleiðingarferli þegar þessi pistill er skrifaður. Á þessu skólaári eru hóparnir tveir 1. – 3. bekkur og 4. – 7. bekkur og ekki annað að finna á nemendum og kennurum að vilji sé til áframhaldandi þróunar á þessu nýja fagi. Fjölmenningasmiðjum er nýlokið á yngsta stigi og í dag voru þau í smiðjum sem báru yfirheitið Allt milli himins og jarðar. Eldri hópurinn hefur að samaskapi fengið að velja ýmislegt svo sem: stuttmyndagerð, tækjatæting, leikhúsförðun og kökuskreytingar svo eitthvað sé nefnt.
 
Hér má sjá glærur með ítarlegri kynningu og myndum.
 
Í vetur erum við með sköpun sem eitt af verkgreinafögum skólans í 1. - 4. bekk. Þessir bekkir fá einn tíma á viku allan veturinn. 5., 6. og 7. bekkur fá tvo tíma á viku.