Stök frétt

Haldið upp á 20 ára vígsluafmæli sundlaugarinnar

Í gær, þriðjudaginn 13. ágúst voru 20 ár liðin frá vígslu sundlaugarinnar í Stykkishólmi. Af því tilefni flutti Ellert Kristinsson ávarp auk þess sem boðið var upp á kaffi, köku og kleinur í íþróttamiðstöðinni.

Mæting var góð enda nýtur sundlaugin mikilla vinsælda bæjarbúa. Eftir nokkur orð frá bæjarstjóra ávarpaði Ellert gesti en hann var formaður byggingarnefndar sundlaugarinnar þegar ákveðið var að ráðast í framkvæmdir, árið 1996.

Í ávarpi sínu sagði Ellert frá aðdraganda og forsendum þessara framkvæmda, erfiðum ákvarðanatökum, framkvæmdinni sjálfri og fleiru.

„Eins og kunnugt er voru  fyrstu hugmyndir um nýja sundlaug þær að  innlaug yrði hún að vera. Réðst það út frá þeirri ísköldu kenningu að við værum á einu hinna svokölluðu köldu svæða og yrðum þar áfram úti í kuldanum“ -sagði Ellert.

En þá var nefndin einnig farin að kanna möguleika á yfirbyggðri laug sem hefði möguleika á að renna einni hlið frá og hleypa sólinni inn á heitum sumardögum.

 „Vissulega var kengur í okkur vegna hins háa rekstrarkostnaðar, sem í vændum var með nýrri laug því hana yrði að kynda með rafmagni" -hélt Ellert áfram. En  kom þá ekki vor í loftið með hlýjum blæ, í orðsins fyllstu merkingu, þegar jákvæð teikn komu fyrir blessað heita vatnið okkar. Á skömmum tíma breyttust allar forsendur fyrir nýja sundlaug og við gátum talist lánsöm að hafa ekki verið komin lengra af stað með innisundhöllina.“

Í kjölfar breyttra forsenda var tekin ákvörðun um að steypa nýja búningsklefa í stað þeirra sem steyptir höfðu verið með íþróttahúsinu, og voru nýttir sem kennslustofur. Þá var einnig ákveðið að sundlaugarnar yrðu tvær, 25 metra löng útisundlaug og 12 metra löng innilaug, en alls voru byggðir 770 fermetrar af nýju húsnæði.

Að lokum skoraði Ellert á bæjarstjórn að efna gamalt loforð, sem að vísu kom frá honum sjálfum fyrir 20 árum síðan. Hann rifjaði upp að í ræðu sinni við vígslu sundlaugarinnar hafi hann lofað því að rennibraut fyrir yngstu kynslóðina kæmi síðar.

 „Hún er ekki komin enn. Mig langar því vinsamlegast  til að biðja ágæta núverandi bæjarstjórn að gefa sundlauginni í 20 ára afmælisgjöf þessa rennibraut fyrir yngsta fólkið okkar, og muna að þeim fjölgar nefnilega ört á kjörskrá sem hafa verið svikin um þetta loforð. Kannski mætti svo standa innan sviga á skilti við rennibrautina að sjötíu ára og eldri megi renna sér þar líka“ – sagði Ellert að lokum, léttur í bragði.